
Tjaldsvæðið við Grettislaug á Reykhólum við Breiðafjörð er í jaðrinum á litlu, fallegu þorpi með fjölbreyttri þjónustu. Frá svæðinu eru léttir göngustígar að fuglaskoðunarhúsi við Langavatn, steininum Grettistaki og hvernum Einireykjum. Reykhólar og Reykhólahérað koma víða við sögu Íslands, m.a. í Grettis sögu og Þorskfirðingasögu. Þar eru mörg örnefni sem minna á dvöl Grettis sterka á Reykhólum og aðra viðburði í fornritum. Á miðöldum voru Reykhólar auðugasta höfuðból Íslands enda einstök hlunnindajörð, einkum vegna sjávarfangs, æðarvarps og annarra náttúrunytja, og fjölmargar eyjar fylgdu. Landbúnaður er helsti atvinnuvegurinn í sveitabyggðum Reykhólahrepps.
Upp úr 1970 myndaðist þorp á Reykhólum og búa þar nú um 130 manns. Niðri við sjóinn er Þörungaverksmiðjan hf. sem veitir mörgum vinnu. Hún hefur verið nefnd einhver náttúruvænasta stóriðja í heimi. Aðrir starfa við skólana og dvalarheimili aldraðra og ýmsa þjónustu. Þjónusta við ferðafólk fer stöðugt vaxandi í Reykhólahreppi. Þar er m.a. að finna hótel, gistiheimili, ferðaþjónustu bænda, upplýsingamiðstöð, verslun, veitingastaði, þaraböð og bílaviðgerðir. Á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum fær fólk m.a. að kynnast æðarfuglinum á nýjan hátt.
Grettislaug á Reykhólum er 25 m útisundlaug með heitum pottum. Í Djúpadal er notaleg innilaug með heitum potti. Í Reykhólasveit er afar fjölskrúðugt fuglalíf og eitt allra besta fuglaskoðunarsvæði hérlendis og miklar líkur að sjá haferni. Þar eru ótalmargar fallegar gönguleiðir og margir athyglisverðir og sögufrægir staðir. Á sumrin er haldin fjögurra daga byggðarhátíð sem nefnist Reykhóladagar.
[:is]
Íslenska
Viðskiptavinir athugið að áður auglýstir opnunartímar tjaldsvæða getur breyst með hliðsjón af tilmælum stjórnvalda um samkomubann.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.
English
Opening dates and hours of camping sites might be changed due to government action for COVID19.
Deutsch
Die Öffnungszeiten der Campingplätze können aufgrund staatlicher Maßnahmen für COVID19 geändert werden.
[:]