
Tjalsvæðið á Raufarhöfn er á rólegum stað við tjörnina. Öll þjónusta er í göngufæri frá svæðinu. Aðstaðan á tjaldsvæðinu er góð og snyrtileg. Þar eru borð og bekkir, vaskur og salernisaðstaða sem og aðstaða fyrir hjólhýsi og húsbíla, með aðgang að rafmagni. Í Íþróttamiðstöðinni, sem er staðsett við hlið tjaldsvæðisins er hægt að setja í þvottavél og þurrkara gegn gjaldi. Í Íþróttamiðstöðinni er einnig góð innisundlaug, heitur pottur,gufa,líkamsræktarstöð og ljósastofa, og er öll miðstöðin til fyrirmyndar fyrir heimafólk jaft og ferðafólk.
Umgjörð kaupstaðarins er einstaklega falleg. Höfnin liggur í skjóli Raufarhafnarhöfða og yfir henni vakir falleg kirkja, byggð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar árið 1927. Ofan við þorpið er Melrakkaásinn og þar mun rísa stærsta útilistaverk á Íslandi, Heimskautsgerðið sem tvinnar saman íslenska menningu, bókmenntasögu og sígild vísindi við sérstæðar náttúruaðstæður.
Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál, með sex metra há hlið sem snúa gegnt höfuðáttunum. Milli hliðana er gert ráð fyrir háum vegg með opum efst og í miðjum hringnum er tíu metra há súla á fjórum stólpum. Opin milli stólpanna snúa líka rétt við höfuðáttunum, þannig að til dæmis má sjá miðnætursólina frá suðurhliðinu í gegn um miðsúluna og norðurhliðið, og á sama hátt hádegissólina frá norðurhliðinu gegn um miðsúluna og suðurhliðið. Leikur ljóss og skugga er að breytast allan daginn og þegar veggurinn verður tilbúinn, munu opin efst á honum virka sem sólúr. Inni í hringnum verða 68 dvergasteinar sem standa við svokallaðan dvergastíg. Innan við stígin verða Pólstjörnubendirinn, sem gerir nákvæmlega það sem í nafni hans felst; Hásæti sólar, þar sem hægt er að setjast og taka myndir; Geislakór, sem er slökunar- og hugleiðslustaður með súlnagirðingu í kring og Altari elds og vatns, þar sem hægt er að halda ýmis konar athafnir, eins og til dæmis brúðkaup og fleira.
Melrakkaslétta er kunn fyrir hlunnindi, fiskveiðar, fjörubeit, æðarvarp, eggjatöku, og gjöful veiðivötn. Þarna er einstök náttúrufegurð á vorin og sumarkvöldum og fjölskrúðugt fuglalíf. Af Rauðanúp er stórkostlegt útsýni og návígi við fuglalífið í dröngunum Karli og Kerlingu.
Raufarhöfn, er nyrsta kauptún Íslands, aðeins 3 km frá heimskautsbaug. Útgerð hefur ávallt verið undirstöðuatvinnuvegur á Raufarhöfn og á síldarárunum var hér ein mesta uppskipunarhöfn landsins og iðandi mannlíf. Nú ríkir meiri kyrrð yfir þorpinu og þar er gott að dvelja , fara í gönguferðir, veiði, siglingar og njóta miðnætursólarinnar.
[:is]
Íslenska
Viðskiptavinir athugið að áður auglýstir opnunartímar tjaldsvæða getur breyst með hliðsjón af tilmælum stjórnvalda um samkomubann.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.
English
Opening dates and hours of camping sites might be changed due to government action for COVID19.
Deutsch
Die Öffnungszeiten der Campingplätze können aufgrund staatlicher Maßnahmen für COVID19 geändert werden.
[:]